Leita í fréttum mbl.is

Dagur 1 og dagur 2 í Helsingborg

Jæja, þá er komið að því að segja ykkur frá ferðalaginu okkar til nýrra heimkynna.

Við flugum sem sagt frá Íslandi aðfaranótt föstudagsins (í gærnótt sum sé). Það var brottför kl 00.30 og bar eitthvað á að í það minnsta ég var orðin þreytt. Strákarnir sváfu ekkert, Einar dottaði í ca 10 mínútur en ég svaf – sem betur fer – í amk eina og hálfa klukkustund.

Við lentum svo í Gautaborg um kl 5.40 að staðartíma. Þegar töskurnar voru komnar var byrjað á því að skipta úr síðbuxum í stuttbuxur! Enda heitur dagur framundan. Við tókum svo leigubíl á lestarstöðina í Gautaborg, og komumst að, í þeirri ferð, að flugvöllurinn er ca 20 km fyrir sunnan Gautaborg. Annað sem vakti athygli okkar strax þarna, var hversu kurteisir og glaðlegir svíar eru, og með þjónustulund. Þegar við komum út úr flugstöðinni, í átt að leigubílunum, stóðu strax þrír bílstjórar upp og buðu okkur góðan daginn, með bros á vör.

Þegar á lestarstöðina var komið þá roguðumst við með allar okkar töskur (sem betur fer flestar á hjólum!) í leit að kaffihúsi! Við „gömlu“ þurftum kaffi, drengirnir þurftu helst snúð en sættu sig við einhverja dísæta kanilfléttu.

Svo tók við tæplega 2ja tíma lestarferð – Jóhannes sofnaði nánast strax og svaf í um 1½ tíma, Jón Ingvi í um klukkustund, ég dottaði kannski 10 mínútur en enn gat Einar ekkert sofnað.

Mér finnst alveg með ólíkindum hversu vel dagurinn gekk, engir árekstrar milli bræðranna og enginn pirringur þrátt fyrir svefnleysi.

Þegar við komum til Helsingborg skelltum við öllum okkar töskum í geymsluhólf og örkuðum sem leið lá á „Skatteverket“ til að skrá okkur inn í landið. Þar tók á móti okkur afskaplega indæll maður, með bros á vör, hann spurði hvaða erindi við ættum og fann réttan starfsmann handa okkur. Sú var jafn indæl og brosandi og hjálpsöm. Svo nú erum við, ég og strákarnir, skráð inn í landið og bíðum bara eftir að nýju kennitölurnar okkar detti inn um lúguna. 

Þaðan örkuðum við að sækja lykla að „övernattningsrum“, sem er herbergið sem við verðum í núna fram að 1.ágúst. Á sama stað fengum við lyklana að íbúðinni okkar, sem við flytjum inn í 1.ágúst. Sú íbúð stendur við Mellersta Stenbocksgatan. Þar sem ég trúi ekki á tilviljanir þá er gaman að segja frá því að langafi minn hét Steinbock.

„Övernatningsrummet“ er 17 fermetrar og sem betur fer erum við sátt...því ósátt er sennilega erfitt að sitja svona þröngt í heila viku.

kvöldmatur í övernattningsrummet

 

 

 

 

 

 

Örkuðum – eða öllu heldur tókum svo strætó, í Ikea þar sem við borðuðum dýrindis kvöldmat (snitsel og kjötbollur) áður en við versluðum smá í matinn.

 

Við fórum SNEMMA að sofa í gær, enda laaaaangur dagur að baki.

Dagurinn í dag, sem sagt dagur 2 í nýju landi, er búinn að vera ljúfur. Byrjuðum daginn á að fara í bæinn og versla okkur strætókort (fengum 2 fríar ferðir í gær þar sem ekki er hægt að borga með pening – fyrri strætóbílstjórinn sagði okkur það ekki, bara brosti og sagði okkur að fara inn...sá sennilega hvað við vorum túristaleg, með bakpoka og alles! Sá seinni var svo elskulegur að gefa okkur líka farið en benti okkur jafnfram á hvað við ættum að gera fyrir næstu ferð).
Haldiði ekki að við höfum svo ekki bara drifið okkur aftur í IKEA. Í þetta skiptið kíktum við á rúm fyrir strákana.

Fórum svo í bæinn að hitta dönsk vinahjón á kaffihúsi, það var bara ljúft sko.

Löbbuðum síðan gegnum „Slottshagen“ og þaðan upp að nýju heimkynnum okkar á M. Stenbocksgatan. Nafnið mitt er komið á dyrasímann – við erum að SPRINGA ÚR SPENNU!!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

úúúú en spennóóóó

Jóna (IP-tala skráð) 26.7.2014 kl. 20:20

2 identicon

Gangi ykkur vel,,gaman að fylgjast með ykkur :) 

Linda Jónsdóttir (IP-tala skráð) 27.7.2014 kl. 00:26

3 identicon

Gangi ykkur vel :)

Anna Margret (IP-tala skráð) 27.7.2014 kl. 11:34

4 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Gaman að heyra að allt gangi vel - þið eruð sennilega heppin að ekki rignir mikið þessa dagana í Svíaríki. Ég byði ekki í að þurfa hanga inni fram að 1. ágúst í 17 fm.

Gott að heyra frá þér

Hrönn Sigurðardóttir, 27.7.2014 kl. 13:50

5 identicon

Hæ elskan. Þú ert líka af sænskum ættum, því að fyrsti Móberginn, forfaðir var sænskur. Langafi þinn var bara eitthvað spes og tók sér nafnið Steinbock.

Knús frá mömmu

Magnea Móberg Jónsd. (IP-tala skráð) 28.7.2014 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Hér skrifar

SigrúnSveitó
SigrúnSveitó

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband